Laugar í Sælingsdal

Hjólið hjá Bæring bilaði í dag. Afturgjörð beyglaðist og fór Jóna með bæði hjólin áleiðis til Búðardals til að athuga hvort ekki væri hægt að laga þau. Við eftirgrennslan var Jónu bent á bónda á Svarfhóli. Kom í ljós að hann átti allskonar gjarðir svo hægt var að skipta um hjá Bæring. Síðan sauð hann saman stellið á hjólinu hans Jóa svo nú geta þeir aftur tekið þátt í ferðinni. En á meðan þau fóru, héldu hetjurnar okkar áfram að hjóla í lemjandi rigningu. Þau komu að Skriðulandi í Svínadal og fengu góðar móttökur, þar sem eigandinn tók á móti þeim með heitu kakói, því þau voru köld og blaut. Einnig fengu þau heitt vatn í núðlurnar sínar og fengu að borða nestið sitt þar. Síðan héldu þau áfram að Laugum í Sælingsdal þar sem farið var í sund. Þau eru að tjalda núna og fara svo að borða. Ætlunin er að fara snemma að sofa og vakna snemma til að leggja í hann aftur.

 


Dagur 3

Nú eru hjólagarparnir að fara að leggja af stað frá Bjarkalundi kl ca 11.30. Ferðinni er heitið í Sælingsdal og þar á að fara í sund. Jói var svo óheppinn að það brotnaði stellið á hjólinu hans, en það á að reyna að fá það lagfært í Búðardal. En allir eru ennþá með heilan rass.

Bjarkalundur

 Jæja nú eru þau komin í Bjarkalund. Voru 9 tíma á leiðinni frá Reykjanesi. Þónokkur mótvindur var út Ísafjörðinn. Erfitt var að hjóla upp á Steingrímsfjarðarheiði, en erfiðara fannst þeim þó að hjóla á Þorskafjarðarheiðinni sjálfri. Hún var holótt og svo var mikið ryk af bílum sem óku framhjá, svo var líka svoldið kallt.

Annars er dagurinn búinn að ganga mjög vel hjá þeim og andinn í hópnum er mjög góður og þau hjálpa hvort öðru mikið t.d. lána vettlinga og grifflur ef einhver er án. 

Þau eru að klára að borða núna en fara svo öll í pokann sinn því þau eru mjög þreytt.


Reykjanes

Tekið var frábærlega á móti þeim í Reykjanesi. þau fengu frítt á tjaldstæðið, og allt var til fyrirmyndar. Þegar þau fóru um kl. 13 voru þau leyst úr með litlum gjöfum. Fínt veður er en stífur mótvindur út Ísafjörðinn. Bíllinn sem keyrir á eftir þeim er með blikkljós á þakinu og allir skátarnir eru náttúrulega í vestum þannig að þau sjást langar leiðir.


Komin í Reykjanes

Komum í Reykjanes um hálf tíu. Vorum 13 tíma á leiðinni rúmlega 140 km. Erum svöng og þreytt. Mjög mikill mótvindur var á leiðinni og nokkrar langar brekkur. Fyrri hlutinn var mjög skemmtilegur og við stoppuðum á klukkutíma fresti til að borða og slaka aðeins á. Í Mjóafirði fengum við að fara yfir brúna og reiddum hjólin yfir. Kristín Henrýsdóttir gerði fyrir okkur yndislegan pastarétt sem við erum að borða núna. Takk fyrir elsku Kristín. Smile

Lögð af stað

Það var fríður hópur skáta sem mættu við skátaheimilið klukkan hálf átta. Farangrinum var raðað í kerruna. Það kom okkur á óvart hvað það var mikill farangur.

Undirbúningur

Við fórum til Simba í Hafnarbúðinni í kvöld sem hjálpaði okkur aðeins með hjólin og sýndi okkur hvernig á að gera við þetta auðveldasta.

Mæting hjá okkur er klukkan hálf átta stundvíslega í fyrramálið, en við ætlum að leggja af stað sirka átta. Muna eftir vatnsbrúsanum!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband